Monthly Archives

May 2009

Frétt af mbl.is

By | Fréttir, Review links | No Comments

Sykursjúkir fagna vali Obama

Samtök sykursjúkra í Bandaríkjunum hafa í dag fagnað því, að Barack Obama, Bandaríkjaforseti, skuli hafa tilnefnt Soniu Sotomayor í embætti hæstaréttardómara. Sotomayor hefur þjáðst af sykursýni frá barnsaldri.

Segja samtökin, að tilnefning Sotomayor sýni, að meta eigi hvern einstakling, sem þjáist af sykursýki, eftir verðleikum þeirra en ekki á grundvelli staðalmynda eða rangra upplýsinga um sykursýki.

Verði tilnefning Sotomayor staðfest í öldungadeild Bandaríkjaþings verður hún fyrsti hæstaréttardómarinn af spænskum ættum, þriðja konan og fyrsti dómarinn sem vitað er til að hafi þjáðst af tegund 1 af sykursýki.

Sotomayor, sem er 54 ára, greindist með sykursýni þegar hún var átta ára. Sjúkdómurinn stafar af því, að ónæmiskerfi líkamans ræðst á ákveðnar frumur í brisinu og hindrar að það framleiði insúlín, sem brýtur niður sykur í fæðunni.

Sykursýki getur leitt til alvarlegra hjarta-, nýrna-, augn- og taugasjúkdóma og er talin draga úr lífslíkum um 7-10 ár. Vaxandi þekking og bætt meðferð hefur þó aukið lífsgæði og lífslíkur.

Hægt er að skoða myndskeið á ensku hér

Það helsta frá fræðslufundinum 9. maí

By | Fréttir | No Comments

Fræðslufundur Félags fótaaðgerðafræðinga og Samtaka sykursjúkra
Hótel Loftleiðum 9. maí 2009

Samtök sykursjúkra hafa undanfarið verið að taka aukinn þátt í samstarfi við önnur félög og hefur það þótt takast vel. Nú síðast var haldinn sameiginlegur fræðslufundur með Félagi fótaaðgerðafræðinga í tilefni þess að í maí lögðu Fótaaðgerðafræðingar sérstaka áherslu á sykursýki og fætur. Erindi dagsins voru fjögur og af ólíkum toga.

Karl Logason æðaskurðlæknir fjallaði um áhrif sykursýki á æðakerfi í fótum, Magnea Gylfadóttir fótaaðgerðafræðingur fjallaði um sykursýki og umhirðu fóta, Bertha María Ársælsdóttir matvæla- og næringafræðingur fjallaði um mataræði sykursjúkra og Jóna Hildur Bjarnadóttir íþróttafræðingur fjallaði um stafagöngu og hreyfingu. Hér á eftir verður farið yfir það helsta sem fram kom í fyrirlestrunum fjórum einnig munu glærur frá fyrirlestrunum verða birtar á síðunni undir fræðsluefni.

fr____slufundur_f__tur_006

Karl Logason, æðaskurðlæknir

Sykursýki og blóðrásartruflanir í ganglimum frá sjónarhorni æðaskurðlæknis

Slagæðasjúkdómar (þá sérstaklega æðakölkun) eru 5-10 sinnum algengari meðal sykursjúkra. Helst koma skemmdir fram í smáæðum þannig að meinið er utar en hjá öðrum og er það verra fyrir einstaklinginn. Hvíldarverkur er eitt af einkennum sem verður vart við þegar æðaskemmdir eiga sér stað. Verkurinn er í fætinum, í tábergi og er verstur þegar menn liggja. Fólki líður betur í sitjandi eða standandi stöðu þar sem blóðið rennur niður í fótinn. Þegar þessi einkenni eru komin eru það merki um lélega blóðrás og þá er fóturinn í hættu. Sykursjúkir sem eru komnir með skemmdir í taugakerfi finna ekki endilega fyrir þessum óþægindum sem annars eru til varnaðar.

Einkenni geta verið villandi og því oft erfitt að greina meinsemdina. Greining á blóðflæði er gerð með þrýstingsmælingu sem er mjög einföld mæling. Þrýstingur í ökkla er mældur og borinn saman við þrýsting í handlegg. Niðurstaða úr mælingunni á að vera sambærileg, sé ökklinn með áberandi lægri þrýsting er þörf á meðferð.

Meðferðarúrræði felast í ýmissi lyfjagjöf en því meiri sem skaðinn er þarf róttækari aðgerðir svo sem víkkun æða og að leiða framhjá æðaþrengingunni (bypass).

 

Bertha María Ársælsdóttir – Gott að borða

Sykursýki krefst ekki lengur að fólk sé á sérstöku fæði heldur er mikilvægt að velja sér mat eins og þeir sem lifa heilbrigðu lífi velja. Sykursjúkir þurfa að borða til að stjórna blóðsykrinum. Kolvetni eru þau næringarefni sem hafa áhrif á blóðsykurinn er þau er mjög mikilvægt að borða í réttu magni. Samkvæmt manneldismarkmiðum ættu 50-60% fæðunnar að koma úr kolvetnum.

Prótein í fæðu eru byggingarefni vöðva (finnast helst í kjöti og fiski), kolvetni eru samheiti yfir fæðutegundir sem hækka blóðsykur (finnast í öllu korni, ávöxtum o.fl). Fita ætti að vera um það bil 30% fæðunnar.

Það er mjög mikilvægt að kolvetnum sé ekki sleppt úr fæðunni í þeim tilgangi að lækka blóðsykurinn því líkaminn engar birgðir til af þeim. Heilinn þarf á kolvetnum að halda til að starfa eðlilega.

Bertha leggur sérstaka áherslu á að fólk njóti þess að borða ferskan og góðan mat og gefi sér tíma. Hún ráðleggur fólki einnig að drekka ekki matinn heldur borða hann þ.e. forðast að fá ávexti dagsins úr ávaxtasafa og þess háttar.

fr____slufundur_f__tur_008

Magnea Gylfadóttir, fótaaðgerðafræðingur – Sykursýki og umhirða fóta

Magnea starfar að hluta til á göngudeild sykursjúkra og veitir meðal annars ráðgjöf, fræðslu og gerir athuganir á fótum auk þess sem hún útbýr nauðsynleg hjálpartæki til meðferðar við fótameinum.

Sjúklingar með sykursýki tegund 2 eiga á jafn mikilli hættu að fá fylgikvilla sykursýki, þá sérstaklega vegna þess misskilnings sem vill verða að ekki þurfi að sinna tegund 2 af jafn mikilli alvöru og tegund 1.

Fyrir sykursjúka er sérstaklega miklvægt að skoða fætur daglega. Ef hreyfigeta er skert er hægt að nota spegil eða fá einhvern annan til að skoða fyrir sig t.d maka, fjölskyldumeðlimi eða heimilishjálp. Fylgjast þarf vel með roða í húð, sprungum og þurrki. Álagssvæði fóta eru sérstaklega neðan á stóru tá og tábergi, þar verður gjarnan vart við doða og skertri tilfinningu.

Sykursjúkir ættu ekki að ganga berfættir. Með tímanum dofnar skynjunin í fótum og er því gott að venja sig strax við að nota skó áður en það gerist.

Mikilvægt er að mæla hitastig á baðvatni með hendinni eða olboganum áður en farið er í bað eða sturtu því fótur með skerta tilfinningu skynjar hitastigið ekki rétt og er því hætta á bruna. Nauðsynlegt er að þurrka vel á milli táa og þurrka burt allar dauðar húðfrumur. Aukinn raki í fótum leiðir til sveppasýkinga og sykursjúkum er enn hættara við sýkingum þar sem ónæmiskerfið er gjarnan veikara. Sveppasýkingu hjá sykursjúkum þarf að meðhöndla.

Fólk með skerta sjón ætti aldrei að klippa táneglur sjálft. Magnea segist hafa orðið vitni að slæmum sárum á fótum vegna þess að viðkomandi sá ekki nógu vel. Fólk ætti að klippa neglurnar strax eftir bað á meðan þær eru enn mjúkar. Klippa á þvert á nöglina og rúna hornin eftir á með naglaþjöl. Inngrónar neglur koma þegar fólk er að klippa niður með nöglinni.

Hjá sykursjúkum getur auðveldlega verið sár undir siggi sem myndast á tábergi. Siggið þarf að fjarlægja, ýmist með fótabaði og naglabursta eða með skurðaðgerð hjá fótaaðgerðafræðingi. Sykusjúkir eiga ekki að nota fótarasp til að vinna á siggi. Núningurinn örvar hitamyndun og eykur þannig hættu á harðri húð. Hefðbundinn naglabursti ætti að notast í hverri sturtu til að við halda mýkt húðarinnar. Burstinn hleypir lofti að fætinum og því er ekki hætta á hitamyndun lýkt og með notkun á raspi. Eftir sturtu ætti að þurrka fætur vel og nota fótakrem. Sár á fótum gróa fyrr hjá þeim sem nota krem vegna mýktar í húðinni.

Mæling á snertiskyni er gerð með því að stinga girnisspotta á fótinn, einstaklingurinn hefur lokuð augu og telur skiptin sem girninu er stungið. Titringsskyn er mælt með tónhvísl. Ef sveiflur eru á blóðsykri skerðist skynið. Með bættri stjórnun er hægt að endurheimta skynið en eftir því sem tíminn líður minnka líkurnar á því.

Vanda skal val á skóm, forðast sauma sem valda núning. Skórnir eiga að passa frá upphafi. Sykursjúkir ættu aldrei að kaupa skó sem þarf að „ganga til“. Reimaðir skór henta betur því þá er auðveldara að losa um þá daga sem bjúgur er. Sykursjúkir ættu að venja sig á að hella sandi úr skóm og renna hendi inn í þá á hverjum degi til að forðast aukahluti sem gætu ert fæturna. Ef skynjun er skert í fótum finnur fólk ekki endilega fyrir aukahlutum.

Fólk ætti að láta skoða fætur einu sinni á ári. Þeim sem koma á göngudeild er bent á að hringja um það bil tveimur dögum áður en þeir koma í eftirlit og kanna hvort fótaaðgerðafræðingur verði á svæðinu. Með þeim hætti getur hún bókað tímann hjá sér þar sem hún sinnir fleiri svæðum innan sjúkrahússins. Þeim sem ekki koma á göngudeild í eftirlit er bent á að panta tíma á heilsugæslu eða hjá fótaaðgerðarfræðing.

Jóna Hildur Bjarnadóttir, íþróttafræðingur – Af stað-út að ganga

Æskileg hreyfing fyrir fullorðna einstaklinga er 30 mínútur á dag og 60 mínútur fyrir börn. Hreyfingin þarf ekki að fara fram í ræktinni eða í einu lagi. Hægt er að dreyfa tímanum yfir daginn með smávægilegum breytingu eins og að taka stiga í stað lyftu, fara út úr strætó 1-2 stoppustöðvum áður, leggja bílnum lengra frá, fara til vinnufélaga með skilaboð í stað þess að senda tölvupóst og fleira í þeim dúr.

Í Bandaríkjunum voru 15% af útgjöldum til heilbrigðismála rakin til hreyfingarleysis. Ef sú tala er yfirfærð á Ísland mætti spara umtalsverða fjármuni ef fólk hreyfði sig meira.

Stafagangan er upprunin í Finnlandi og var markaðssett árið 1997. Mikilvægt er að fólk læri að beita stöfunum rétt því þá er hægt að nota alla vöðvahópa líkamans. Um 20% meiri nýting á líkamanum á sér stað með því að ganga með stafi auk þess sem hún hefur mjög góð áhrif á kvilla eins og vöðvabólgu sé stöfunum beitt rétt. Ávinningur fyrir eldri borgara er einnig mikill, bæði fæst aukinn stuðningur og þeir sem eru farnir að vera hoknir í baki ná að rétta betur úr sér og fá aukið súrefni til lungna.

Ávinningur af stafagöngu fyrir sykursjúka er margþættur. Álagið dreyfist á líkamann og léttir því á fótum, blóðflæði eykst, aukin hreyfing eykur insúlínframleiðslu og auðvelt er að stjórna álaginu. Jóna Hildur ráðleggur sykursjúkum sem fara á námskeið í stafagöngu að láta kennarann vita af sykursýkinni.

fr____slufundur_f__tur_007

 

 

Ný tækni til að mæla blóðsykur

By | Fréttir, Review links | No Comments

Verið er að þróa nýja tækni til að mæla blóðsykur hjá sykursjúkum án þess að þurfa blóðdropa með stungu eins og þeir hefðbundnu mælar sem nú eru algengastir.

Lítil tölvuflaga er grædd undir skinn sykursjúkra og mælir hún blóðsykurinn með stuttu millibili. Móttakarinn er nú á stærð við farsíma en samkvæmt framleiðendum þá verður hægt að hafa hann minni í framtíðinni. Nýi mælirinn er ekki kominn á markað en hann verður kynntur formlega í október næstkomandi.

Hér er hægt að lesa nánar um nýja mælinn sem vonandi kemur á markað sem fyrst.

Fætur og sykursýki – fræðslufundur

By | Fréttir, Review links | No Comments

Við minnum félaga á fræðslufundinn sem haldinn er af Félagi
fótaaðgerðafræðinga og Samtökum sykursjúkra á laugardaginn.

Yfirskriftin er fætur og sykursýki

Staðsetning: Hótel Loftleiðir, Þingsalur 1-2

Tími:  Laugardaginn 9. maí kl. 11 – 14

fjölbreytt erindi, vörukynningar og léttar veitingar í hléi.

Nánari upplýsingar í nýjasta fréttabréfi samtakanna.

Fundargerðir stjórnar á vefinn

By | Fréttir, Review links | No Comments

Ný stjórn Samtaka sykursjúkra hefur ákveið að taka upp á þeirri nýbreytni að setja fundargerðir stjórnarinnar á vefinn svo félagar geti fylgst enn betur með því sem fram fer í félaginu. Stjórnin vonar að þetta mælist vel fyrir hjá félagsmönnum.

Fundargerðir má finna undir flipanum Samtökin – Fundargerðir og hér má lesa fyrstu fundargerðina sem kemur á vefinn.