Ekki falla!

Fylgdu þessum leiðbeiningum til að reyna að forðast of lágan blóðsykur við áfengisneyslu: · Drekktu aldrei á fastandi maga. · Ekki drekka meira en 1–2 drykki. · Ef þú ert nýbúinn að reyna mikið á þig skaltu mæla blóðsykurinn áður en þú drekkur og a.m.k. einu sinni á meðan. Fylgstu með hvort blóðsykurinn lækkar næstu stundirnar eftir áreynsluna. Áfengi hefur líka áhrif á hæfileika líkamans til að takast á við lækkaðan blóðsykur. Ef blóðsykurinn lækkar gætirðu þurft að bregðast við því oftar en einu sinni í sama skiptið. Ef þú hefur verið að drekka skaltu mæla blóðsykurinn áður en þú ferð að sofa. Ráðlegt er að fá sér eitthvað að borða áður en gengið er til náða, til að forðast sykurfall í svefni. VARÚÐ! Glúkagon sprautur laga ekki blóðsykur sem hefur lækkað vegna áfengisneyslu. Glúkagon sprautur hækka blóðsykur sem hefur lækkað vegna of mikils insúlíns. Það sem glúkagonið gerir, er að örva lifrina til að senda glúkósa út í blóðið. En áfengi stöðvar þá virkni, eins og áður var lýst. Blóðsykurlækkun vegna áfengisneyslu verður að meðhöndla með því að neyta kolvetna, t.d. þrúgusykurstaflna eða “Hypo-Stop”, þrúgusykurshlaup sem sprautað er upp í munninn. Því verðurðu að forðast að blóðsykurinn lækki mjög mikið. Ef þú missir meðvitund þarftu að fá glúkósa sprautað í æð, en það geta einungis læknar og hjúkrunarfólk gert. Mikil áfengisneysla getur skaðað lifrina. Hún missir hæfileikann til að framleiða glúkósa. Ef það gerist verður erfiðara að stjórna sykursýkinni. Sum einkenni áfengisneyslu, s.s. óskýrt tal og það að tapa áttum, eru svipuð áhrifum of lágs blóðsykurs eða of hás hlutfalls ketóna í blóði (algengast hjá insúlínháðum sem hafa tekið of lítið insúlín). Ef þú ert með þessi einkenni gætir þú verið beðin/n að taka öndunarpróf eða látinn gefa blóðsýni. Engin ástæða er til að hafa áhyggjur af þessu. Sykursýki hefur ekki áhrif á niðurstöður áfengisrannsóknar, þó þú sért með of lágan blóðsykur. Ef þú þarft að fara í áfengisprufu og hefur val, skaltu heldur biðja um blóðprufu. Þannig getur læknir líka athugað blóðsykur og ketónahlutfall í leiðinni.

Bjórvömbin leiða

Þó að eitt og eitt glas öðru hvoru hafi ekki áhrif á blóðsykurstjórn þína, þá getur það haft áhrif fyrir þá sem þurfa að létta sig. Tveir ljósir bjórar gefa u.þ.b. 200 auka hitaeiningar. Áfengi er oft kallað “tómar” hitaeiningar, af því það gefur engin næringarefni. Ef þú ert að reyna að létta þig, verður þú að bæta hitaeiningunum úr áfenginu við daglega inntöku úr fæðu. Ekki viltu henda út öðrum hitaeiningum sem gefa nauðsynleg næringarefni. Ræddu við næringarráðgjafa þinn eða lækni um leiðir til að bæta áfengi inn í mataræðisskipulag þitt. Ef þú ert á hitaeiningasnauðu mataræði skaltu hugsa þig um tvisvar áður en þú bætir við áfengi. Almennt talað er áfengi skipt út fyrir fitu og korn/sterkju einingar.

Hvaða drykki á að velja?

Sumir drykkir eru skárri en aðrir fyrir sykursjúka. Veldu drykki með lægra alkohól- og sykurinnihaldi. Forðastu sæt eftirréttavín, púrtvín og líkjöra, sem geta hækkað blóðsykurinn mjög hratt. Ef þú notar bland út í drykkina, veldu þá tegundir sem eru sykursnauðar/lausar, t.d. diet gos, diet tónik, sódavatn, ölkelduvatn, eða bara vatn. Þetta hjálpar þér að halda blóðsykrinum innan ásættanlegra marka. Ljós bjór og þurr vín henta ágætlega. Þau hafa tiltölulega lágt áfengis- og kolvetnainnihald og gefa færri hitaeiningar en annað. Til að drykkirnir endist lengur, reyndu þá “spritzer”. Blandaðu hvít/rauðvíni við ölkelduvatn með gosi, sódavatn eða diet gos. Prófaðu óáfenga drykki, en athugaðu að þeir eru ekki hitaeiningalausir.

Hvenær er áfengi slæmur kostur?

Sumir sykursjúkir ættu alls ekki að neyta áfengis. Áfengi getur aukið á einkenni sumra fylgikvilla sykursýki. Ef þú ert með taugaskemmdir af völdum sykursýki í hand- eða fótleggjum, getur áfengisneysla aukið á einkennin. Áfengi hefur eituráhrif á taugaenda. Neysla þess getur aukið á verki, doða, náladofa og önnur einkenni taugaskaða. Sumar rannsóknir benda til þess að jafnvel lítil regluleg neysla áfengis (minna en tvö glös á viku) geti hraðað taugaskemmdum. Mikil áfengisneysla (þrjú glös eða meira á dag) getur valdið því að augnskaði af völdum sykursýki versni. Ef þú ert með of háan blóðþrýsting geturðu lækkað hann með því að hætta að neyta áfengis. Margir sykursjúkir eru með hátt hlutfall blóðfitu sem kallast þríglýseríð. Sért þú í þeim hópi, ættirðu ekki að neyta áfengis. Áfengi hefur áhrif á getu lifrarinnar til að hreinsa fitu úr blóðinu. Áfengi hvetur líka lifrina til að framleiða meira þríglýseríð. Jafnvel lítil drykkja (tvö vínglös á viku) getur hækkað hlutfall þríglýseríða í blóði.

Þýtt úr ensku
Fríða Bragadóttir