Lög Diabetes Ísland – félags fólks með sykursýki, samþykkt á aðalfundi félagsins 30.mars 2022.

 

  1. gr.

Félagið heitir Diabetes Ísland – félag fólks með sykursýki.

Félagið er almannaheillafélag og starfar samkvæmt lögum nr.110/2021 .

 

  1. gr.

Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæðið er landið allt.

 

  1. gr.

Tilgangur félagsins er m.a. að:

 

  1. a) Halda uppi fræðslu um sykursýki til almennings og fagfólks.
  2. b) Vinna að því að styrkja heilsugæslu, forvarnir og að styðja við starfsemi Innkirtladeildar á Landspítala.
  3. c) Fjármögnun félagsins byggir á félagsgjöldum og styrkjum.

 

4.gr.

Félagar geta orðið; sykursjúkir og velunnarar þeirra, sem styðja vilja tilgang félagsins.

 

5.gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningar félagsins skulu vera tilbúnir til endurskoðunar 1. mars ár hvert.

 

6.gr.

Árgjald til félagsins skal vera eins og aðalfundur ákveður ár hvert. Gjald fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja skal vera helmingur af venjulegu árgjaldi.

 

Stjórn Samtaka sykursjúkra skal greiða árlega 1/3 af þeim félagsgjöldum sem greidd eru vegna barna til foreldrafélags sykursjúkra barna.

 

 

7.gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málum félagsins og tekur á starfi félagsins eins og þörf er á. Hann skal haldinn fyrir lok marsmánaðar ár hvert. Rétt til setu á aðalfundi eiga skuldlausir félagar. Til aðalfundar skal boða með minnst viku fyrirvara. Á aðalfundi skal stjórn félagsins gefa skýrslu um starf félagsins. Í upphafi fundar skal kjósa fundarstjóra og ritara fundarins. Fundarstjóri kannar lögmæti fundarins og lýsir eftir tillögum í málum sem þarf að afgreiða. Lagðir skulu fram reikningar félagsins fyrir síðast liðið ár endurskoðaðir og undirritaðir af löggiltum endurskoðanda og einum félagslega kjörnum skoðunarmanni til umræðu og samþykktar. Taka skal fyrir lagabreytingar ef fram hafa komið við upphaf fundar. Kosin skal stjórn félagsins sbr. 9 grein laga þessara. Kosinn skal einn skoðunarmaður reikninga og annar til vara, og skal kosningin gilda til eins árs í senn. Ákveða skal árgjöld og leggja fram fjárhagsáætlun yfirstandandi árs og í lok fundar bjóða upp á umræður um önnur mál.

 

8.gr.

Til almennra félagsfunda boðar stjórnin, þegar henni þykir þurfa, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Enn fremur er stjórninni skylt að boða til félagsfundar, ef 2/3 félagsmanna óska þess og greina fundarefni. Boði félagsstjórnin ekki til fundar innan 14 daga eftir að henni barst krafan geta hlutaðeigandi félagsmenn sjálfir kvatt til fundar. Fundir eru lögmætir, ef þeir eru löglega boðaðir. Til fundanna skal boða rafrænt með minnst viku fyrirvara. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála á fundum félagsins, nema þar sem meiri munur er áskilinn í lögum þessum.

 

9.gr.

Stjórn félagsins skal skipuð 5 mönnum, kosnum á aðalfundi . Stjórnin skiptir með sér verkum þannig að úr sínum hópi kýs hún formann, varaformann, ritara , gjaldkera og meðstjórnanda. Kosningin gildir til eins árs í senn. Æskilegt er að einn stjórnarmaður komi frá Dropanum, styrktarfélagi barna með sykursýki og annar frá Ungliðahreyfingu samtakanna. Stjórnin skal koma saman til fundar a.m.k. mánaðarlega og skal hún halda sérstaka gerðarbók. Að öðru leyti kveður stjórnarformaður stjórnina til fundar, þegar honum þykir þörf og skylt er honum að boða til funda í stjórninni þegar þrír menn í henni óska þess. Stjórn getur samþykkt að framselja einstök verkefni og embætti stjórnar til framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri félagsins situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

 

10.gr.

Lögum þessum verður ekki breytt nema á aðalfundi og séu að minnsta kosti 2/3 fundarmanna samþykkir breytingunum. Óheimilt er þó að breyta ákvæði 11 gr. laganna varðandi ráðstöfun á eignum samtakanna, verði þau lögð niður.

 

11.gr.

Til þess að leggja samtökin niður, þarf samþykki tveggja aðalfunda og séu félagsslitin samþykkt með a.m.k. 4/5 greiddra atkvæða á hvorum fundi fyrir sig. Geta skal sérstaklega áforms um félagsslit í fundarboðinu. Verði samtökin lögð niður, skal eignum þeirra ráðstafað til líknarstarfa.