Diabetes Ísland – félag fólks með sykursýki

Samtök sykursjúkra voru stofnuð árið 1971 af hópi sjálfboðaliða, árið 2022 var nafni félagsins breytt í Diabetes Ísland – félag fólks með sykursýki

fossStarfið hefur ávallt byggst á framlagi sjálfboðaliða; fólks með sykursýki, fjölskyldna þeirra og vina og áhugasams heilbrigðisstarfsfólks. Í upphafi árs 2022 voru félagsmenn  um 1600 talsins. Auk fólks með sykursýki og aðstandenda þeirra kemur að starfinu fjöldi heilbrigðisstarfsmanna, apóteka, heilbrigðisstofnana og styrktaraðila.

Árlegur aðalfundur er haldinn í mars. Þar er kjörin 5 manna stjórn sem skiptir með sér verkum og fer hún með öll málefni félagsins milli aðalfunda.

Diabetes Ísland – félag fólks með sykursýki er landssamtök en einnig eru starfandi samtök foreldra sykursjúkra barna, Dropinn.

Félagið hefur einn starfsmann í hlutastarfi og er skrifstofan opin tvo morgna í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 10-12. Skrifstofan er til húsa í Setrinu, á jarðhæð í Hátúni 10, en þar leigja saman nokkur sjúklingafélög.

Meginverkefni samtakanna eru

 • Að ljá fólki með sykursýki rödd í almennri umræðu og að tala máli þeirra við yfirvöld.
 • Að gefa út fræðsluefni um sykursýki og fylgikvilla hennar, bæði fyrir sjúklingana sjálfa og fyrir allan almenning.
 • Að skipuleggja fjölbreytt félagsstarf fyrir félagsmenn sína.
 • Halda uppi fræðslu um sykursýki
 • Vinna að því að styrkja heilsugæslu, forvarnir og að styðja við starfsemi Innkirtladeildar á Landspítala.

Félagið gefur út ýmis konar bæklinga fyrir fólk með sykursýki og aðra áhugasama. Einnig gefur félagið út tímaritið Jafnvægi einu sinni á ári, heldur fræðslu- og skemmtifundi, starfrækir gönguhóp og skipuleggur ferðalög.

Diabetes Ísland er hluti af IDF, alþjóðlegum samtökum fólks með sykursýki, og félagið er einnig virkt í samstarfi Norðurlandanna, auk þess sem það er hluti af Öryrkjabandalagi Íslands.

 • Diabetes Ísland – félag fólks með sykursýki
 • Setrinu
 • Hátúni 10
 • 105 Rvk.
 • Sími: 562-5605
 • Netfang: diabetes@diabetes.is

Skrifstofa félagsins er opin þriðjudaga og fimmtudaga klukkan 10-12.

Fólk er hvatt til að skilja eftir skilaboð á símsvara samtakanna eða senda tölvupóst utan þess tíma.