Allir geta eitthvað!

By September 19, 2019 Fréttir

Næsta námskeið hefst 8.október

tímarnir eru ca 45-60 mínútur

nánari upplýsingar á www.crossfitreykjavik.is

 

Við vekjum athygli á námskeiðinu “Allir geta eitthvað” hjá CrossFit Reykjavík.
Leiðbeinandi á námskeiðinu er Heiðrún Berglind Finnsdóttir.
 
Námskeiðið var hannað fyrir fólk sem er í endurhæfingu eða á örorku eða bara komið í þrot með sitt heilsufar en veit ekki hvar það á að byrja á að breyta lífi sínu.
 
Hugmyndin er að hjálpa þessum hóp að rjúfa félagslega einangrun, koma þeim af stað í hreyfingu og búa til skemmtilega stemmingu í rólegu umhverfi en hist er á tímum þar sem lítið er að gera á líkamsræktastöðinni.
 
Sjálf kemur Heiðrún úr þessum hóp og þekkir vel takmarkanirnar sem heimurinn setur manni þegar maður á ekki að geta eitthvað. Það var henni því hjartans mál að fara af stað með þetta námskeið og keyra það í gang.
Nú er komin ágætis reynsla á námskeiðið og hafa þau séð hvert kraftaverkið gerast á fætur öðru. Kona sem gat ekki klætt sig í sokka án hjálpar getur nú klætt sig í sokkana. Önnur sem glímir við taugahrörnunarsjúkdóm er orkumeiri í gegnum daginn og á nokkrum vikum hefur náðst ótrúlegur árangur en hún styðst ekki eins mikið við hækjur og getur nú tekið stutta göngutúra án þeirra og meira að segja borið lóð á eigin spýtur.
 
Þáttakendur eru ekki bara að komast í betra líkamlegt form heldur eru þau að sigrast á félagsfælni og kvíða, sofa betur, borða betur.
 
Þau eru að styrkjast, verða orkumeiri og kraftmeiri
Þau eru að fá aukið sjálfsálit og styrkja trúna á eigin getu.
Þau eru að mynda vináttu, búa til jákvæðar tengingar við líkamsrækt og Crossfit
 
 
Þeim hefur tekist að kenna Crossfitið og útfæra það á þann hátt að allir geta verið með burt séð frá líkamlegri getu. Þau breyta æfingunum, aðlaga þær eftir hæfni og getu hvers og eins og hafa meira að segja orðið sér úti um útbúnað fyrir hjólastóla.
 
Draumurinn er að allir geti upplifað sig velkomna í líkamsræktinni og geti notið þess að hreyfa sig á sinn hátt.
 
Nánari upplýsingar:
Heiðrún, heidrun@loomus.com, 894-8608