Fréttabréf ágúst 2012

By August 31, 2012September 2nd, 2016Fréttir

Fréttabréf Samtaka sykursjúkra

Nú ættu allir félagsmenn að vera búnir að fá fréttabréf samtakanna inn um lúguna hjá sér.
En hér að neðan má einnig lesa innihald bréfsins.

Haustferð

Hin árlega haustferð verður farinn laugardaginn 15.september 2012. Farið verður í Dali á slóðir Eiríks rauða og Guðrúnar Ósvífursdóttur. M.A verður komið við í Haukadal, Búðardal og Sælingsdal. Lagt verður af stað klukkan 09:00 frá Hátúni 10B. Ferðin kostar kr. 5000 og frítt fyrir börn 12 ára og yngri. Ein máltíð er innifalin í verði. Ferðalangar hafi með sér nesti og hlý föt.

Skráning í síma 562-5605 og á netfanginu diabetes @ diabetes.
Einnig er hægt að skrá sig í síma 892-5567 Ómar Geir.
Skráningu lýkur þriðjudaginn 11. september

Gönguferðir haustið 2012

Gengið verður á sunnudögum kl 13:00

16. september Bessastaðir Álftanesi

30. september Grillhúsið Sprengisandi v/Bústaðaveg

14. október Stöðin, Suðurfelli 4

28. október Laugardalslaugin

11. nóvember Neskirkja, Hagatorgi

25. nóvember Nauthólsvík

9. desember Ráðhús Reykjavíkur

Nýtt Jafnvægi á leiðinni

Nú líður að útgáfu Jafnvægis, tímarits samtaka sykursjúkra, en að venju mun það koma út í nóvember í tengslum við alþjóðadag sykursjúkra. Við viljum mjög gjarna fá efni eða tillögur um efni í blaðið frá félagsmönnum. Ef þú/þið hafið einhverjar hugmyndir um hvað gaman væri að hafa í blaðinu, endilega látið í ykkur heyra, annað hvort í tölvupósti eða síma (diabetes@diabetes.is 562-5605).
Kveðja frá ritstjórn

Gervibrisið færist nær

Danskir vísindamenn hafa færst einu skrefi nær því að búa til gervibris, þ.e. tækni þar sem insúlíndæla og blóðsykurmælir eru samtengd og vinna saman stöðugt allan sólarhringinn. Tekist hefur að halda blóðsykri hóps sjúklinga stöðugum alla nóttina með því að nota sítengdan blóðsykurmæli sem sendir upplýsingar í insúlíndælu sem svo reiknar út insúlínþörf miðað við þær mælingar og dælir insúlíni eftir því. Nú er unnið að því að þróa tæknina enn frekar, svo að sjúklingurinn verði laus við að reikna sjálfur út hlutfall milli fæðuinntöku og insúlínþarfar. Á þessu ári (2012) er stefnt á að gera prófanir að degi til þar sem sjúklingarnir eru á ferðinni og borða, en við þær aðstæður reynir mun meira á tæknina. Von manna er að innan 5-10 ára verði hægt að framleiða tæki af þessu tagi sem myndi gagnast fólki með T-1 sykursýki.