Kröfuganga 1.maí

By April 28, 2015 September 3rd, 2016 Fréttir

Samtök sykursjúkra eru aðilar að Öryrkjabandalagi Íslands. Hér er tilkynning frá formanni og varaformanni ÖBÍ varðandi 1.maí. Nú er undirbúningur fyrir 1. maí í fullum gangi hjá okkur. Við ætlum að taka þátt í göngu verkalýðshreyfingarinnar eins og við höfum gert undan farin ár. Í fyrra var slagorðið okkar „Burtu með fordóma“ en í ár verður slagorðið „Atvinna fyrir alla“ og við munum dreifa nokkur þúsund höfuðbuffum líkt og í fyrra. Auk þess munum við safna undirskriftum þar sem fólk skorar á stjórnvöld til að lögfesta Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Undirskriftunum verður meðal annars safnað á þar til gerða miða sem festur verður á hvert buff. Krafan um atvinnu fyrir alla er meðal annars tilkomin vegna þess að á síðustu mánuðum hefur það sýnt sig að atvinnulífið er ekkert sérstaklega opið fyrir því að ráða fólk með skerta starfsgetu í vinnu. Sést það best á þeim fjölda starfa sem hafa skilað sér með átakinu „Virkjum hæfileikana, alla hæfileikana“ sem Vinnumálastofnun, ÖBÍ og Landssamtökin Þroskahjálp hafa staðið fyrir frá því byrjun nóvember á síðasta ári. Einungis hafa sex störf skilað sér með þessu átaki en þess ber að geta að átakið stendur enn yfir og auðvitað vonumst við til þess að fleiri störf eigi eftir að skila sér á næstu vikum. Þá vonumst við einnig til að geta haft áhrif á framgang þessara mála með kröfugöngu okkar 1. maí. Við hvetjum félagsmenn aðildarfélaga til að koma og taka þátt í göngunni með okkur. Gangan hefst kl.13,30 frá Hlemmi en einnig má slást í hópinn á Lækjartorgi eða hitta okkur á Ingólfstorgi. Ellen Calmon, formaður ÖBÍ Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ